Póstur frá íþrótta- og framkvæmdastjóra BFH Nú er að fara af stað skemmtilegasta og stærsta ár BFH og er mikil eftirvænting hjá öllum í kringum félagið. En eins og við öll vitum eru fordæmalausir tímar og þurfum við öll að hugsa um nokkra hluti áður en við mætum til æfinga og í opið hús (sjá neðar í texta).
 

BFH er stórt og náið félag og eitt smit eða sóttkví getur stöðvað starfsemi félagsins og viljum við með öllu móti halda henni gangandi. Ef við gerum þetta saman, fylgjum leiðbeiningum og erum skynsöm þá verður þetta geggjað ár 😊

Áfram þið og áfram við.


Æfingar:

Mikilvægasta vörnin gegn COVID-19 í tengslum við æfingar hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar er að farið sé eftir tilmælum heilbrigðisyfirvalda eins og nokkur kostur er.

• Eingöngu iðkendur, þjálfarar, framkvæmdastjóri og stjórnarmenn hafa aðgang að æfingum. Athugið að foreldrar og forráðamenn hafa ekki aðgang að æfingum, og eiga ekki að koma inn í húsnæði BFH, nema með leyfi starfsmanna eða þjálfara.

• Þjálfarar, sjúkrateymi, framkvæmdastjóri og stjórnarmenn skulu virða 2 metra regluna við aðra þátttakendur ella nota andlitsgrímu ef ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk. Undanþága um tveggja metra reglu fyrir iðkendur og þjálfara, gildir aðeins á æfingasvæðinu, ekki utan þess. Starfsmenn íþróttamannvirkja skulu ekki vera inni í sal á æfingatíma. Sé það nauðsynlegt skulu þeir nota andlitsgrímu sé ekki mögulegt að halda 2 metra fjarlægð frá þátttakendum.

• Þátttakendum er óheimilt að nota aðra félagsaðstöðu, s.s. eldhús eða aðra sameiginlega aðstöðu. Liðsfundir skulu fara fram í sal á æfingatíma eða með fjarfundarbúnaði. Ef nauðsynlegt er að nýta fundaraðstöðu skal fara að almennum reglum um 2 metra fjarlægð milli aðila.

• Þátttakendur skulu spritta hendur fyrir og eftir æfingar og sama á við um allan búnað. Sameiginlegir snertifletir skulu sótthreinsaðir á milli æfinga og/eða funda. Fækka skal sameiginlegum snertiflötum í íþróttasölum eins og hægt er, t.d. bekkjum, stólum og öðru slíku.


Opið hús:

• Aðeins þeir sem kaupa sér aðgang hafa leyfi til að vera í æfingarsal. Foreldar, forráðamenn og vinir hafa ekki aðgang af húsinu til að “horfa á”. • Aðeins 25 iðkendur geta verið í einu í æfingarsal. Ef mikil aðsókn er í húsið og iðkandi yfirgefur húsnæðið hefur hann misst sitt pláss.


Ef íþróttamaður eða annar einstaklingur innan félags, eða fjölskyldur þeirra, fær einkenni sem geta bent til COVID-19: Skal viðkomandi halda sig heima og alls ekki mæta á æfingasvæði eða leikvang. Hafa skal samband við heilsugæslu símleiðis eða í gegnum netspjall á heilsuvera.is eða við Læknavaktina í síma 1700, svo unnt sé að framkvæma próf fyrir COVID-19 án tafar. Það er mjög mikilvægt að fara ekki í eigin persónu á heilsugæslu eða Læknavaktina án þess að hringja á undan sér. Heilbrigðisstarfsfólk veitir ráðleggingar um næstu skref.


Einkenni COVID-19:

• Hiti

• Hósti

• Andþyngsli

• Hálssærindi

• Slappleiki

• Bein- og vöðvaverkir

• Skyndileg breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni


Með Bretta- og hjólakveðju þjálfarar, framkvæmdastjóri, starfsmenn og stjórnarmenn Brettafélags Hafnarfjarðar

Hafðu samband

Endilega hafið samband við okkur í gegnum tölvupóst eða í gegnum facebook
  • Facebook - Black Circle
  • Instagram - Black Circle