top of page

Lög Brettafélags Hafnarfjarðar

1. grein
Félagið heitir Brettafélag Hafnarfjarðar. Heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.

 

2. grein
Tilgangur félagsins er að kenna og iðka snjóbrettaíþróttina og gæta hagsmuna félagsmanna.

 

3. grein

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að halda uppi skipulögðum æfingum fyrir félaga sína, standa fyrir og taka þátt í íþróttamótum. Halda uppi öflugu og þroskandi félagslífi meðal félaga sinna, standa fyrir góðu og vönduðu æskulýðsstarfi þar sem áhersla er lögð á heilbrigt líf og forvarnir gegn vímuefnanotkun.

 

4. grein

Stjórn félagsins er kjörin á aðalfundi. Hún er skipuð 5 einstaklingum, formanni, ritara, gjaldkera og 2 meðstjórnendum. Stjórnin er kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum.

 

Í félaginu starfa eftirfarandi deildir:

     

      a. Snjóbrettadeild
     

      b. Hjólreiðadeild
     

      c. Almenningsíþróttadeild

 

Stjórn félagsins skipar starfsnefndir sem fjalla um málefni deilda félagsins.

 

5. grein
Félagi getur hver sá orðið, sem skráður er í félagið og greiðir félags- eða æfingagjald til þess.

Félagsgjöld greiðast ár hvert og er upphæðin háð ákvörðun stjórnar hverju sinni fyrir hvert almanaks ár.

 

6. grein

Halda skal skrá yfir félaga og iðkendur og stöðu félagsgjalda. Félagsgjaldið rennur í félagssjóð. Félagsgjald er innifalið í æfingagjöldum iðkenda.

 

7. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins. Hann skal halda fyrir 31. mars ár hvert og til hans boðað með minnst 7 daga fyrirvara til að hann teljist löglegur. Boðað skal til aðalfundar bréflega, með tölvupósti eða á annan gjaldgengan hátt. Aðalfundur kýs félaginu stjórn, samþykkir reikninga og kýs einn skoðunarmann reikninga. Meirihluti atkvæða félagsmanna á aðalfundi dugar til að ná fram úrslitum.

 

Dagskrá fundarins skal vera:

  1. Fundarsetning

  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

  3. Skýrsla formanns

  4. Skýrslur nefnda

  5. Skýrsla gjaldkera og reikningar félagsins lagðir fram

  6. Umræða um skýrslu formanns og gjaldkera

  7. Reikningar bornir undir atkvæði

  8. Lagabreytingar

  9. Kosning stjórnar og skoðunarmanns

  10. Önnur mál

  11. Fundarslit

 

Aðalfundur er opinn öllum en aðeins félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Allir félagsmenn eldri en 18 ára eru kjörgengir við kosningu stjórnar. Félagsmaður má veita umboð og skal það afhent á aðalfundi dagsett og undirritað af félagsmanni. Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði.

 

8. grein

Formaður er aðalforsvarsmaður félagsins. Hann kallar saman stjórnarfundi sem skulu haldnir eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim.

Stjórn auglýsir félagsfundi. Stjórnin skal gæta þess að lögum og reglum félagsins sé hlýtt og hafa vakandi áhuga fyrir öllu því sem verða má félaginu til heilla.

 

9. grein

Stjórn félagsins ákveður verkaskiptingu milli einstakra nefnda. Nefndarmenn skulu skipta með sér verkum. Nefndir skulu skila skýrslum um starfsemi sína til stjórnar félagsins. Nefndir skulu koma saman eins oft og þurfa þykir. Formaður nefndar boðar til fundar. Formenn nefnda eiga rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt.

Stjórn getur boðað til fundar með einstökum nefndum eftir því sem þurfa þykir. Stjórn getur breytt ákvörðunum nefnda ef hún telur ástæðu til. Nefnd er óheimilt að stofna til skuldbindinga nema með heimild frá stjórn félagsins.

 

10. grein

Stjórn boðar til félagsfunda svo oft sem þurfa þykir. Stjórninni ber að boða til félagsfundar ef minnst fimm félagsmenn óska þess skriflega og skal hann haldinn innan 14 daga. Dagskrá fundarins skal tilkynna í fundarboði. Meirihluti mættra félagsmanna ræður á löglega boðuðum félagsfundum.

 

11. grein
Atkvæðagreiðsla um mál skal vera skrifleg ef einn atkvæðisbær félagsmaður óskar þess.

 

12. grein
Reikningstímabil félagsins er almanaksárið.

 

13. grein
Fjármögnun félagsins felst í æfinga- og félagsgjöldum.

 

14. grein
Rekstrarafgangi/hagnaði félagsins skal varið í samræmi við tilgang Brettafélags Hafnarfjarðar.

 

15. grein

Félagsmaður sem gengur úr félaginu á enga kröfu á hendur því um endurgreiðslu á greiddum félagsgjöldum né eignarhluta í eigum félagsins.

 

16. grein
Félaginu verður ekki slitið nema 2/3 félagsmanna samþykki það á aðalfundi í löglegri

atkvæðagreiðslu, enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir lægi tillaga um félagsslit.

 

17. grein

Ef um eignir er að ræða við slit félagsins skulu greiddar upp allar skuldir sem félagið hefur stofnað til og ef um umfram eignir er að ræða eftir greiðslu allra skulda skulu þær renna til Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH).

 

18. grein

Lögum þessum verður ekki breytt nema með 2/3 hlutum greiddra atkvæða á aðalfundi. Skulu tillögur um lagabreytingar hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 1. mars ár hvert. Lög þessi öðlast gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ og ÍBH hafa staðfest þau.

 

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Brettafélags Hafnarfjarðar 29. mars 2017 og falla eldri lög félagsins sem dagsett voru 26. nóvember 2015 úr gildi.

bottom of page